Yamaha  Ténéré 700 / 2023

Ég hef lengi haft þá reglu að forðast að djöflast á mótorhjólum annarra manna. Ég falast ekki eftir því og afþakka ef mér hefur verið boðið slíkt.
Um daginn var haft samband við mig og mér boðið hjól að láni!

Boðið kom frá umboðsaðila Yamaha á Íslandi.
Díllinn var að ég tæki til kostanna 2023 árgerðina af Yamaha  Ténéré 700 og á spítunni hékk að ég myndi mögulega fjalla aðeins um upplifun mína af hjólinu.
Ég mundi auðvitað eftir reglunni góðu … en rámaði líka í aðra reglu um að ef hjólið væri í eigu fyrirtækis … eða eitthvað … – löng saga stutt – ég stóðst ekki mátið og sagði Já takk!

Stuttu síðar mætti ég til þess að sækja gripinn.
Ténéré 700 er minnsta  Ténéré hjólið sem Yamaha framleiðir núna. Stærri útgáfan, sem nú er hætt í framleiðslu,  var klárlega í flokki “Ævintýra-ferðahjóla” og þessi litli bróðir er almennt einnig talinn tilheyra þeim flokki.
En þarna þar sem ég sá hjólið fyrir framan verslunina, komst ég ekki hjá því að hugsa að mér fyndist það líta meira út eins og yfirstærð af Endúró-, eða Rallýhjóli. Tiltölulega reisulegt og hátt undir neðsta punkt og er á endúrógjörðum (21″ framgjörð & 18″ afturgjörð).

Við nánari skoðun þá sér maður þó að hjólið er samt með nokkur einkenni ferðahjóla. Á því er “RallyTurn” sem gefur vindvörn, frambrettið er niðri við dekkið, eldsneytistankurinn er stór og á hjólinu var öflug varnargrind sem er aukabúnaður. Afturgjörðin er breið, tveir bremsudiskar eru að framan og á afturhluta hjólsins eru festingar fyrir farangursgrindur. Allt atriði sem almennt heyra til ferðahjóla. Auðvitað fylgir þessu öllu aukin þyngd sem er frekar í ætt við ferðahjól en létt endúróhjól.

Eftir smá skoðun á hjólinu var komið að því að setja í gang og láta reyna á gripinn.
Auðvitað rauk hjólið í gang og ég tók strax eftir mótorhljóðinu. Ekki að það væri einhver hávaði, heldur bara dálítið gæjalegt ‚rallý-hljóð‘.
Eins og alltaf þegar maður sest á nýtt hjól þá reynir maður að taka lífinu með ró á meðan maður „tengir“ sig við hjólið.
Það verður að segjast eins og er að ég var alveg ágætlega tengdur við þetta hjól eftir bara tvö hringtorg og nokkrar gírskiptingar. Ásetan á hjólinu hentaði mér mjög vel og gírhlutfallið kom vel út.
Kúplingingsvirkni var góð. Tiltölulega auðvelt að kúpla frá og eins að miðla aflinu út aftur í dekkin. Ég hefði viljað hafa kúplingshandfangið aðeins nær en ég vandist því þó fljótt.

Hjólið skartar tveggja strokka, 689 rúmsentimetra fjórgengismótor, sem er mjög gangþýður. Eftirtektarvert var hve vel mótorinn höndlaði það ef ég var í aðeins of háum gír. Mótorinn reyndi bara að gera gott úr þessu ranga gíravali mínu og „torkaði“ sig bara upp í hraða sem hentaði gírnum, án þess að allt nötraði. Ef manni liggur ekki mikið á og maður er ekki að glápa á mælana, þá ræðst ferðahraðinn hjá manni oft af því hvernig mótorinn vinnur – hvar honum virðist líða best. Við þessar aðstæður var ég gjarnan einhvers staðar í kringum 4.500 snúninga á ca. 100 km/klst.
Hestöfl og ekki síst snúningsvægi mótorsins sjá til þess létt er að auka við snúninginn. Framúrakstur og meiri ferðahraði var því ekkert mál.

Vindhlífin sem fylgir hjólinu er ágæt. Ég telst seint hávaxinn en er þó þannig skapaður að ég er frekar hár í sæti. Fyrir mig var þessi vindhlíf kannski ögn of stutt. Á meiri hraða þurfti ég að halla mér aðeins fram til þess að komast í vindskuggann. Ég varð lítið var við vindhvirfla frá vindhlífinni.

Hjólið virkaði bara vel á malbikinu en nú var komið að því að prófa hjólið utan malbiks.

Standandi staða á hjólinu er mjög þægileg. Hjólið er frekar mjóslegið og mér fannst ég vera frekar á endúróhjóli en ferðahjóli þó svo að hjólið með fullan tank sé um 204 kg.

Dekkin sem hjólið kemur á eru frá Pirelli af tegundinni Scorpion Rally STR.
Þetta eru 50/50 dekk sem almennt fá góða dóma. Þau voru fín á malbikinu en ég var smá efins þegar ég fór yfir á mölina. Í ljós kom að dekkin voru auðvitað harðpumpuð fyrir malbik og eftir að ég slakaði aðeins á þrýstingnum þá var þetta allt annað líf. Þessi dekk koma á óvart í grófu undirlagi, þrátt fyrir útlitið.
Ég lét allar stillingar á fjöðrun eiga sig. Hjól koma gjarnan frá verksmiðju með allar stillingar einhver staðar á miðju stillisviði. Verksmiðjustillingin var í sjálfu sér alveg að gera sig á venjulegum malarvegi – jafnvel þó einhverjar holur væru. Hjólið „track‘aði“ nokkuð vel í beygjum eftir að ég lækkaði dekkjaþrýsting aðeins.

Málið vandaðist aðeins þegar ójöfnurnar urðu fleiri og dýpri. Verksmiðjustaðan á fjöðrunarstillingunum réði heldur ekki nógu vel við aukinn hraða.
Sérstaklega fann ég fyrir því að dempun á sundurslætti að aftan hefði þurft smá viðbót.
Mögulegt er að stilla fjöðrun hjólsins á alla kanta. Til þess þarf þó skrúfjárn – nema reyndar er handfang á afturdemparanum til að stilla forspennu á gormi.
Dempun á samslætti að framan er stillt neðan á göfflunum og að ofan er mögulegt að stilla sundursláttinn. Sömu stillingar eru mögulegar á afturfjöðruninni (sundursláttur stilltur niðri).

Þar sem ég var ekki með skrúfjárn með mér varð ég að láta mig hafa það að keyra hjólið á verksmiðjustillingunni. Það í sjálfu sér gekk bara mjög vel utan á einum stað þar sem ég fór upp mjög grófgrýtta brekku. Þar vildi hjólið aðeins hoppa til. Ég er nokkuð viss um að smá aukning á sundursláttardempun bæði aftan og framan hefði bætt stöðuna verulega.

Hjólið er búið ABS bremsukerfi sem mögulegt er að stilla á þrjá vegu; Full ABS (aftan og framan), ABS bara að framan og svo ABS alveg af. Sjálfur forðast ég það sem heitan eld að hafa ABS virkt að aftan þegar ég keyri utan malbiks. Stilla þarf ABS‘ið á meðan hjólið er stopp.
Smá leiðindi eru því fylgjandi, að um leið og maður „swissar“ af, þá fara þessar stillingar aftur í sjálfgefna stöðu næst þegar hjólið er gangsett; þ.e.a.s. Full ABS!!
Mjög þægilegt er hins vegar að stilla þetta með einföldu stýrihjóli vinstra megin á stýrinu – það er bara að muna eftir að gera það.
Engin spólvörn er á þessu hjóli og finnst mér það bara kostur. Nota slíkt alls ekki utan malbiks og oftar lent í vandræðum vegna spólvarnar en að hún hafi hjálpað.

Mælaborðið er 5 tommu TFT skjár. Hann er mjög skýr og bjartur og auðvelt að sjá allar aðgerðir þar.

Sætið sem er tvískipt, er meðalmjúkt. Mér leið alveg ágætlega á þessu sæti á lengri malbiksköflunum. Sætið er frekar mjótt og því þægilegt að standa á þessu hjóli.
Aftari hluta sætisins er mögulegt að fjarlægja með því að nota lykilinn. Þar undir er lítið hólf fyrir verkfæri og annað smálegt. Til þess að taka fremri hluta sætisins af (t.d. að komast í geymi) þá þarf að skrúfa tvær skrúfur. Sexkantur til þess er staðsettur í sérstöku hólfi þar við.

Niðurstaðan:

Yamaha  Ténéré 700 telst vissulega til ferðahjóla.
Þó það sé gjörlegt, þá myndi ég ekki hlaða á svona hjól fullt af farangri og fara í langa malbikstúra á meginlandinu. Stærri ferðahjól eru hentugri í slíkt.
Kostir þessa „endúrólega“ ferðahjóls nýtast hins vegar best að mínu mati í hvers konar ferðalög inn á hálendi íslands.
Hjólið er ekki eins þungt og fullvaxið ferðahjól og því viðráðanlegra þegar kemur að því að fást við erfiða malarvegi og slóða.
Tveggja strokka 690 cc mótorinn er þokkalega kraftmikill en þó fyrst og fremst mjög þýður þannig að manni líður vel á hjólinu á lengri ferjuleiðum.
Fjöðrunin er hreint ágæt og sinnir algjörlega þörfum þeirra sem eru að byrja í slóðaferðabransanum. Lengra komnir geta stillt fjöðrunina að nokkru marki að sínum þörfum. Kostur er að í boði eru alls konar aukahlutir, hafi maður þörf á að auka enn við þolmörk fjöðrunarinnar.

Hjólið kemur með mótorhlífðarpönnu sem er úr frekar þunnu efni og líklega væri ráðlegt fyrir þá sem hraðar fara að fjárfesta fljótt í sterkari hlíf. Sömuleiðis hugsa ég að ég myndi fjárfesta fljótlega í annað hvort hærri vindhlíf eða viðbót við hana.

Hjá mér, í nokkuð blönduðum akstri, var eyðslan á hjólinu í kringum 5l/100km þannig að út úr 16 lítra tanki hefði ég náð um 320 km. Með sparakstri má ugglaust ná enn lengra.

Allt í allt þá leið mér nokkuð vel á hjólinu við flestar aðstæður – jafnvel með verksmiðjustillingar á fjöðrun.
Ég myndi segja að Yamaha Ténéré 700 er gott alhliða hjól til að ferðast á um Ísland – bæði malbiksrúnta en ekki síður til þess að hoppa svo af malbikinu og kanna grófari slóðir landsins.