Laugardaginn 10. júní fór fram 3. umferð Íslandsmeistaramótsins í Enduro á Jaðri.
Veður var flott á meðan keppni stóð en dagana á undan hafði rignt mikið og var brautin því mjög blaut á köflum sem gerði það að verkum að mikil drulla myndaðist í brautinni. Áður en keppni hófst var brautinni breytt og teknir úr henni kaflar sem voru of torfærir og landið viðkvæmt. Þrátt fyrir það þá voru sumir sem töldu þetta vera erfiðustu keppni sem þeir hafa tekið þátt í.
Svæðið á Jaðar er gríðarlega fallegt og fjölbreytt landslag sem gerir þetta virkilega skemmtilegt aksturssvæði og þökkum við landeigenda kærlega fyrir að taka á móti okkur og leyfa okkur að halda keppni á þessu frábæra svæði. Fyrsta keppnin var haldin hér 2018 og voru aðstæður svipaðar þá.
Alvarlegt slys varð á fyrsta hring keppninnar og óskum við þeim sem slasaðist góðs bata.
Yamaha pylsubarinn var á svæðinu að venju og voru margir sem komu og fengu sér gómsæta pylsu og gos. Nú er Enduro Íslandsmeistaramótið komið í smá frí en næsta keppni í Enduro Fyrir Alla verður þann 28. ágúst í Bolaöldu.
Nú er Íslandsmeistaramótið í Motocrossi að hefjast en 1. umferð verður þann 24. júní á Ólafsvík. Við verðum að sjálfsögðu á staðnum með Yamaha pittinn og hvetjum við sem flesta til að mæta.
Alls voru 71 keppandi skráður og stóðu Yamaha keppendur sig vel eins og alltaf, en Eiður Orri Pálmarsson var ekki með þar sem hann er í bretlandi að keppa og æfa í Motocross.
Sigurður Hjartar Magnússon #707 stóð sig eins og hetja og hafði orð á því hvað þetta hefði verið skemmtileg braut og hefði haft mikið gaman af að keyra. Hann var í 25. sæti overall og í 4. sæti í sínum aldursflokk 50-59 ára.
Axel S. Arndal #976 stóð sig virkilega vel líka og kom í mark rétt á eftir Sigurði Hjartar sem setti hann í 26. sæti overall og í 4. sæti í sínum aldursflokk 30-39 ára.
Eiríkur S. Arndal #152 keyrði einnig vel en hann lenti í 41. sæti overall og í 11. sæti í sínum aldursflokk 30-39 ára.